menu

Verðbólga og vextir

Verðbólga og hækkandi vextir eru mikið áhyggjumál og risastórt viðfangsefni.

En hverjir græða og hverjir tapa í verðbólgu? Fyrirtækin og fjármálakerfið hafa hagnast ævintýralega á þessu ástandi og eru tölurnar ógnvænlegar. Met ár var í hagnaði fyrirtækja árið 2021 og stefnir 2022 í að slá öll fyrri met. En hvernig stendur á þessu? Kaupmáttur hrynur og innviðir og grunnþjónusta grotnar undan okkur hægt og bítandi. Hvernig í ósköpunum má vera að þetta þurfi að vera svona?

Svarið er ósköp einfalt. Ríkisstjórnin hefur öll tæki og tól til að milda höggið á almenning og jafna þetta út. Rétt eins og flest siðmenntuð ríki Evrópu hafa gert með inngripum eins og leiguþaki, hóflegum vaxtahækkunum, hvalrekaskatti á ofur gróða fyrirtækja til að mæta aukinni þörf á stuðningi til almennings og styrkja stoðir grunnkerfa. Sækja á breiðustu bök samfélagsins í stað þess að hyggla þeim og moka enn frekar undir, í botnlausri tryggð. Ríkisstjórnin sem hefur hafið sitt fimmta starfsár og hefur staðið fyrir sömu vandamálunum árum saman en ekkert gert. Á sama tíma séð til þess að ekkert verði sótt í sjóði ríkasta minnihlutans eða hróflað við völdum þeirra og auð sem fara með auðlindir okkar sem sína eigin. Frekar hafa ráðamenn þjóðarinnar létt undir með þessum fámenna en gráðuga hópi með margvíslegum aðgerðum og aðgerðarleysi. Auðsöfnunin í kringum fiskeldið er líklega nýjasta dæmið af mörgum.