menu

Baráttan gegn spillingu

Spillingin er sjálfnærandi og hefur hreiðrað um sig alls staðar í stjórnsýslunni. Seðlabankinn er hollur þjónn sömu spillingar og má þar nefna leyndarhyggjuna í kringum fjárfestingaleið Seðlabankans eftir hrun og Lindarhvols málið þar sem útilokað virðist vera að fá upplýsingar um hverjir fengu afslátt af krónum og hvaðan peningarnir komu og hverjir fengu eignir Lindarhvols (Ríkiseignir) á hrakvirði.

Svo ekki sé minnst á þá gríðarlegu tilfærslu sem er frá skuldsettum heimilum og fyrirtækjum til bankanna með miklum stýrivaxtahækkunum. Tilfærslur sem eiga sér engin fordæmi í samanburðarlöndum.

Ríkisstjórnin er líklega hollasti þjónninn af þeim öllum. Árum saman hefur fjarað undan heilbrigðiskerfinu! Árum saman hefur húsnæðismarkaðurinn verið í molum og leigumarkaðurinn vígvöllur vel vopnum búnum fjárfestum gegn berskjölduðu fólki!

Helsta orsök bankahrunsins voru mikil ítök sérhagsmuna í pólitíkinni til að afregluvæða og einkavæða á meðan mótstaða var lítil sem engin. Við vitum öll hvernig það endaði. Spilling er ekki bara að stela, svíkja og pretta, eða hygla og moka undir aðra sem verða þér hliðhollir seinna. Spilling er líka að hafa vitneskju um það og gera ekkert í málunum. Spilling er að grafa undan aðhaldi, eftirliti og upplýstri umræðu.

Versta tegund spillingar í okkar samfélagi eru ekki brotin heldur þöggunin og meðvitað aðgerðarleysi gagnvart þeim.